Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Útfærsla á nýrri tengingu milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls með stórum steypustyrktarjárnum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Markmið verkefnisins er þróa nýja tengingu milli forsteypts stöpulveggjar og staðsteypts sökkuls til að lágmarka framkvæmdartímann á staðnum. Árið 2022 voru smíðuð voru tvö prófstykki í 60% skala og prófuð á tilraunagólfi umhverfis- og byggingarverkfræðideildar Háskóla Íslands. Tilraunir sýndu að tengingin virkar vel og hefur skýrsla þess efnis verið birt á heimasíðu Vegagerðarinnar. Ákveðið var að einfalda tenginguna enn frekar með því að nota stærri steypustyrktarjárn, og þar með færri, til að tengja saman vegginn við sökkulinn. Tvö ný prófstykki voru smíðuð haustið 2023 og prófuð í janúar 2024. Úrvinnsla gagna er í gangi.

Verkefnið er unnið sem meistaraverkefni í byggingarverkfræði við Háskóla Íslands í samstarfi við Vegagerðina, BM Vallá og Vistu verkfræðistofu.

Tilgangur og markmið:

 

Ný burðarvirki og byggingaraðferðir eru nauðsynlegar til að draga úr verktíma á framkvæmdastað. Ein lausn til að draga úr byggingartengdum töfum er að forsteypa burðareiningar utan vinnusvæðis og setja þær saman þegar þær koma á staðinn. Þessi nálgun bætir einnig öryggi starfsmanna og eykur byggingargæði.

Þessi rannsókn gengur út á að þróa nýja tengingu milli veggja (eininga) og staðsteypts sökkuls með því markmiði að einfalda framkvæmdina.

Kostir tengingarinnar:

  • Meðhöndlun og flutningur er auðveldur
  • Tengingin er einföld. Standa engin járn út úr tengingunni
  • Einfaldar smíði einingar

Ókostir:

  • Undirstaðan gæti þurft að vera aðeins dýpri eða þykkari (til að minnka skerspennur) en gerist í útfærslu staðsteyptrar tengingar. Rannsóknir sýna þó að skerspennur séu ekki vandamál ef einingunni er stungið niður í sökkulinn sem nemur veggþykkt einingar.

Fyrirhuguð byggingarröð:

  • Einingar eru forsteyptar. Á sama tíma getur verktaki verið að undirbúa vinnusvæðið
  • Neðri járnagrind er komið fyrir
  • Einingar eru hífðar á sinn stað og stilltar af
  • Járn í efri grind eru stungið í gegnum göt á veggnum
  • Gengið frá járnagrind í sökkli og hann steyptur á staðnum.

Smíðuð voru tvö prófstykki í 60% skala haustið 2023:

Prófstykki 1 – Smíðað með útfærslu nýrrar tengingar. Prófstykkið var eins og er lýst í skýrslu fyrra verkefnis nema hér voru sett skerjárn í veggeininguna (við væntan plastískan lið) til að framkalla fullt vægisbrot.

Prófstykki 2 - Smíðað með útfærslu nýrrar tengingar nema hér voru notuð stór steypustyrktarjárn í efri grind staðsteypts sökkuls. Með þessari útfærslu er hægt að nota færri járn sem bæði lágmarka  sem og veitir meira svigrúm við að þræða þau í gegnum eininguna. Stærri járn þýða stærri göt og þar með meira rými. Jafnframt er veggurinn með skerjárn í veggeiningunni.

Prófun fór fram á tilraunagólfi byggingarverkfræðideildar við Háskóla Íslands í janúar 2024.

Fyrir liggur að ný brú verður byggð yfir Öxará í Bárðardal og gert er ráð fyrir að tengingin verði notuð í því verkefni. Í samráði við Vegagerðina var ákveðið að fara strax í áðurnefndar tilraunir.