Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Akstursferðamennska um fáfarnar slóðir. Áhrif ferðamannaleiða og ástands vegakerfis á leiðir ferðamanna um dreifðar byggðir

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Traust og skilvirkt samgöngukerfi er ein meginundirstaða uppbyggingar ferðaþjónustu, enda flutningskerfi forsenda tilfærslu fólks og flutninga. Íslensk ferðaþjónusta byggir mest á aksturs-ferðamennsku (e. Drive Tourism) og því er gott vegakerfi grundvallandi þáttur í uppbyggingu og þróun greinarinnar hérlendis. Það þýðir jafnframt að Vegagerðin, sem veghaldari þjóðvegakerfisins, er mikilvægur hagaðili ferðaþjónustunnar.

Á síðustu árum hefur verið leitast við að ná fram jafnari dreifingu ferðamanna um landið með þróun svokallaða ferðamannaleiða. Það eru leiðir sem markaðssetja skilgreinda veghluta landsins ásamt áfangastöðum og þjónustukjörnum á því svæði sem farið er um. Markmið þessarar rannsóknar er að fanga hvernig ferðafólk nýtir þessar leiðir og áhrifaþætti leiðanna í ákvörðunum þeirra sem ferðast um landið utan alfaraleiða. Sérstök áhersla verður lögð á að rannsaka hvernig ástand og gerð vegakerfisins birtist í skipulagi ferðalaga.

Verkefnið sem hér um ræðir er ákveðið framhald rannsóknar sem Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) gerði árið 2023 með styrk úr Rannsóknasjóði Vegagerðarinnar. Þeirri rannsókn var beint að aðdraganda og tilurðar ferðamannaleiða og aðkomu Vegagerðarinnar að ákvarðanatökum og verkferlum við þróun leiðanna. Skýrslu um það verkefni verður skilað til Vegagerðarinnar í febrúar 2024. Tilgangur þessarar rannsóknar er hins vegar að afla gagna um nýtingu og áhrif leiðanna með því að beina sjónum að notendum þeirra.

Rannsóknin beinist að ferðafólki á hluta Norðurstrandarleiðar sem er fyrsta skilgreinda ferðamannaleið landsins. Leiðinni er ætlað að auka dreifingu ferðafólks og með því meðal annars að jafna möguleika fámennari svæða til uppbyggingar ferðaþjónustu. Rannsóknaráhersla á áhrif ferðamannaleiða og gerð vegakerfis í ákvörðunum ferðatilhögunar utan alfaraleiða, skapar nýja þekkingu sem nýtist jafnt Vegagerðinni til áætlanagerðar og ekki síður samfélögum í dreifbýli sem horfa til mögulegrar uppbyggingar ferðaþjónustu í héraði.

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur rannsóknarinnar er að auka skilning á áhrifum ferðamannaleiða og ástands vegakerfis á för ferðamanna um dreifbýli landsins. Um er að ræða tilviksrannsókn þar sem sjónum er beint að hluta Norðurstrandarleiðar. Markmið rannsóknarinnar er að skoða hvort ferðamenn hafi haft leiðina til hliðsjónar við skipulag ferða um landið. Einnig verður lögð áhersla á að rannsaka  hvort og þá hvernig áhrif vegtenginga, fjarlægða, yfirborðs og ástands vegakerfis birtist í upplifun ferðamanna og vali þeirra á leiðum.

Á Norðurstrandarleið eru sumarleið og vetrarleið sem eru skilgreindar út frá nýtingu, flokkun og vetrarþjónustu. Þessi rannsókn beinir sjónum að tveimur af þeim fjórum nesjum Norðurlands sem ekki eru á vetrarhluta Norðurstrandarleiðar, Vatnsnesi á vesturhluta hennar og Melrakkaslétta á austurhluta. Svæðin búa yfir ákveðnum þáttum sem, með tilliti til uppbyggingar ferðaþjónustu, bjóða upp á áhugaverðan samanburð.

Með rýni á samfélagsmiðlum, könnun og viðtölum við ferðamenn er rannsókninni ætlað að afla þekkingar á því hverjir  fara  um þessi svæði, hlut ferðamanna í umferðinni, hvað fékk þá til að fara leiðirnar, hvort malarvegir skipti máli, hvort ferðafólk fari norður fyrir nesin eða fram og til baka af tengivegi að áfangastöðum. Jafnframt verður leitast við að fanga hlut Norðurstrandarleiðar í ferðatilhögun, áhrif vegteninga og vægi upplýsinga í ákvörðunum ferðafólksins.

Rannsóknin skapar þekkingu á áhrifum ferðamannaleiða og ástandi og gerð vegakerfis á för ferðamanna utan alfaraleiða. Aukin þekking á hlut ferðamannaleiða í ferðatilhögun og upplifun ferðafólks af akstri utan þéttbýlis getur veitt hagnýtar upplýsingar sem gagnast Vegagerð og ferðamálayfirvöldum við áætlanagerð. Niðurstöðurnar geta ekki síður reynst hagnýtar samfélögum á ferðamannaleiðum til uppbyggingar sjálfbærrar ferðaþjónustu í dreifbýli. Rannsóknin tengist þar með heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni hvað varðar sjálfbær samfélög, atvinnu, nýsköpun, ábyrga nýtingu og samvinnu.