Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Áhrif áfoks og gjósku á kolefnisferla í röskuðum mýrum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Þrátt fyrir að íbúaþéttleiki Íslands sé sá minnsti í Evrópu samsvarar hlutdeild raskaðra (framræstra) mýra á láglendi Íslands Evrópsku meðaltali. Mýrar á hálendi eru einnig undir þrýstingi, sérstaklega sökum mikilla áfoksefna í formi gjósku og vindborinna efna frá rofnu þurrlendi. Íslenska ríkið hefur á undanförnum árum haft það að markmiði að binda kolefni í náttúrulegum landvistkerfum til mótvægis við losun kolefnis. Þar sem mýrar eru stærstu kolefnisgeymslur jarðvegs og vegna þess að framræsla mýra veldur losun kolefnis hafa íslensk stjórnvöld lagt áherslu á að fylla upp í skurði til að minnka kolefnislosun. Þrátt fyrir þau markmið er enn takmörkuð þekking á uppsöfnun og varðveislu kolefnis í íslenskum mýrum en til þess að skilja ferli kolefnis í mýrum á eldvirkum svæðum þarf að rannsaka áhrif áfoks og gjóskulaga þar á.

Hér er um að ræða verkefni sem ætlað er að bæta þekkingu á uppsöfnun og varðveislu kolefnis í framræstum mýrum á láglendi og í óframræstum mýrum á áfokssvæðum á hálendi Íslands. Rannsóknasvæðið myndar landslags- og loftslagssnið frá Svínadal í norðri, til hálendis Auðkúluheiðar og Arnarvatnsheiðar yfir til Borgarfjarðar í vestri. Meðfram því sniði er unnið með sex mýrar úr fjölbreyttu umhverfi hvað varðar loftslag og áhrif áfoks. Þannig verður dreginn upp mynd af varðveislu kolefnis undir breytilegum áhrifum ytri þátta. Unnið er með jarðvegssýni og vatnssýni úr hverri mýri, en ýmsar breytur er varða efnaeiginleika og stöðugleika kolefnis hins vegar, og eiginleika steinefna annars vegar eru ákvarðaðar á þeim sýnum. Greining á gróðurfari mýra og mælingar á CO2 losun úr jarðvegi mýra fer fram á vettvangi.

Tilgangur og markmið:

 

Kolefnisgeymir mýra er mikilvægur hlekkur kolefnishringrásar, en auk þess er kolefnið í mýrum mikilvæg undirstaða fjölþættrar vistkerfisþjónustu þeirra, en þar má t.d. nefna hlutverk mýra fyrir líffræðilegan fjölbreytileika, og fyrir framboð og gæði vatns. Mýrar á Íslandi og víða annars staðar í heiminum eru undir miklu álagi vegna landnotkunar og loftslagsbreytinga, og er brýnt að spá fyrir um áhrif rasks á þessi vistkerfi. Ekki síst er mikilvægt að skilja áhrif rasks á uppsöfnun kolefnis í mýrum.

Óvenjulega mikið magn áfoksefna í formi gjósku og rofefna frá þurrlendisjarðvegi berst í íslenskar mýrar, og eru þær því frábrugðnar öðrum mýrum á svipuðum breiddargráðum. Nýlegar rannsóknir benda til þess að gjóskulög og eldfjallaeinkenni jarðvegs stuðli að aukinni kolefnisuppsöfnun og stöðugleika kolefnis í tiltölulega óröskuðum íslenskum mýrum, en það skortir rannsóknir á kolefnisuppsöfnun í röskuðum mýrum á eldvirkum svæðum (þ.e.a.s. framræstum mýrum eða mýrum undir miklum áhrifum fokefna frá rofnum þurrlendisjarðvegi á hálendi).

Markmið þessarar rannsóknar er að auka þekkingu okkar á áhrifum eldvirkni og jarðvegsrofs á kolefnisuppsöfnun og stöðugleika kolefnis í röskuðum íslenskum mýrum. Með því að rannsaka raskaðar íslenskar mýrar (jafnframt sem erindreka mómýra á öðrum eldvirkum svæðum), mun mikilvæg ný þekking bætast við það sem fyrir er vitað um ferla kolefnis í mýrum undir þrýstingi frá áhrifum mannsins og annarra ytri umhverfisþátta. Til að ná markmiði rannsóknar verður lögð áhersla á eftirfarandi spurningar:

1.         Er munur á kolefnisuppsöfnun og hraða uppsöfnunar í röskuðum íslenskum mýrum eftir loftslagi, hæð og magni ólífrænna áfoksefna?

2.         Hafa gjóskulög áhrif á kolefnisuppsöfnun í röskuðum íslenskum mýrum?

3.         Hafa eldfjallaeinkenni jarðvegs áhrif á kolefnisuppsöfnun og stöðugleika kolefnis í röskuðum íslenskum mýrum?