Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Hagnýting samgöngulíkans fyrir loftgæðaútreikninga

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í mörgum verkefnum er farið fram á það að metin séu áhrif vegframkvæmda á loftgæði. Vitundarvakning hefur orðið síðustu ár um áhrif loftgæða og til framtíðar eru líkur á að krafa verði gerð um að skoða þennan þátt í tengslum við fleiri vega og gatnaverkefni. Loftgæðaútreikningar hafa lengi tíðkast annars staðar á norðurlöndunum og eru þeir orðnir jafn almennir og útreikningar á hljóðvist. 


Tilgangur verkefnisins er að nota samgöngulíkanið til þess að áætla losun mengunarefna frá vegaumferð samhliða umferðaspám. Farið verður í gegnum forsendur í líkaninu sem hafa áhrif á losun mengunarefna. Kannað verður hvernig líkanið skilgreinir bílaflotan í dag og hvernig er hægt væri að breyta honum í umferðarspám til framtíðar þannig að til dæmis meta megi áhrif fjölgunar rafbíla til framtíðar.  Lagt verður mat á það hvernig svifryk sem verður til út frá sliti á vegum verður metið í samgöngulíkani og í því samhengi verður NORTRIP skoðað.  


Unnar verða leiðbeiningar um hvernig nota skuli líkanið við þessa útreikninga. Annað markmið verkefnisins er að samræma verklag við svona útreikninga meðal ráðgjafa á þessu sviði. Með aðgengilegum upplýsingum er hindrunum fækkað við framkvæmd á þessum rannsóknum og þannig verði þær almennari. 


Bætt loftgæði fela í sér umfangsmikinn ávinning fyrir samfélagið í heild sinni. Með því að stíga fyrstu skref í að nýta samgöngulíkan höfuðborgarsvæðisins til þess að skapa verkfæri til að spá fyrir um áhrif breyttar notkunar og uppbyggingar samgöngukerfisins á loftgæði er stigið veigamikið skref í að þessi mál fái hærra vægi í skipulagsferlinu. 


í nóvember 2017 gaf umhverfis- og auðlindaráðherra út áætlun um loftgæði , Hreint loft til framtíðar – áætlun um loftgæði á Íslandi 2018-2029. Í áætluninni eru sett markmið með röð aðgerða til að takmarka loftmengun í landinu. Hagnýting samgöngulíkans og samræmd aðferðarfræði við útreikninga hjálpa til við mat á aðgerðum sem settar eru fram í þessari áætlun. 

Tilgangur og markmið:

 

Tilgangur verkefnisins er að nota samgöngulíkanið til þess að áætla magn mengunarefna á vegum samhliða umferðaspám. Þættir verða áætlaðir í líkani og áhrif þeirra tekin með til framtíðar eins og hlutfall rafbíla. Lagt verður mat á það hvernig mengunarefni frá sliti vega verða metin inn í magnið. 


Unnar verða leiðbeiningar um hvernig nota skuli líkanið við þessa útreikninga. Annað markmið verkefnisins er að samræma verklag við svona útreikninga meðal ráðgjafa á þessu sviði. Með aðgengilegum upplýsingum er hindrunum fækkað við framkvæmd á þessum rannsóknum og þannig verði þær almennari.