Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Aldur jökulgarða og jökulhörfun á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Kortlagning jökulrænna landforma og setlaga á undanförnum árum endurspeglar legu fornra ísstrauma í íslenska ísaldarjöklinum á Norðausturlandi. Talið er að þessir ísstraumar hafi verið virkir fram á síðjökultíma þegar jaðar jökulsins stóð við ströndina (rétt innan við ströndina í Vopnafirði fyrir um 11,000 árum). Næsta jökulstaða með þekktan aldur er síðan við norðurjaðar Vatnajökuls frá 1810-1890, um 100 km innar í landinu. Á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum eru víða jökulgarðar og endasleppir sandar sem benda til að hörfun ísaldarjökulsins á nútíma hafi verið ósamfelld. Árið 2022 var hafist handa við að aldursgreina jökulgarða á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum með mælingum á áhrifum geimgeislunar (e. cosmogenic exposure dating) og gjóskulagafræði til að varpa ljósi á hraða og mynstur jökulhörfunarinnar. Fyrstu niðurstöður benda til að afhjúpunaraldur Skessugarðs sé 10.900 ár og Fiskidalsgarðs 10.200 ár. Fyrstu niðurstaðna af Búrfellsgarði og Þorláksmýragarði á Brúaröræfum er að vænta um mitt ár 2024. Á Íslandi er gjóskulagafræði öflugt tól til að tímasetja atburði og aldursákvarða jarðmyndanir. Markmið verkefnisins er því að beita gjóskulagafræði (skrásetja snið, taka sýni og efnagreina) samhliða mælingum á áhrifum geimgeislunar til að styrkja aldursákvörðun garðanna og fá þannig betri mynd af hörfun ísaldarjökulsins og þróun landmótunar. Með tengingum aldursgreininga við landmótun eykur verkefnið þekkingu okkar á hnignun íslenska ísaldarjökulsins og varpar ljósi á þróun stórra jökla á tímum hlýnandi loftslags. Niðurstöður verkefnisins nýtast einnig við að skorða líkön fyrir þróun íslenska ísaldarjökulsins. Þá eykur verkefnið þekkingu okkar á jarðgrunni, sem almennt er lítt kortlagður á Íslandi.

Tilgangur og markmið:

 

Upphaflegt markmið þessa verkefnis er að varpa ljósi á hnignun íslenska ísaldarjökulsins og fornra ísstrauma í honum á Norðausturlandi með gjóskulagafræði og greiningum á afhjúpunaraldri (e. exposure age) valinna landforma á sniði frá Vopnafirði inn á Brúaröræfi (mynd 1). Rökrétt má telja að aldur jökullandforma lækki inn til landsins en fjöldi jökulgarða frá Vopnafirði, inn eftir Jökuldalsheiði, og inn á Brúaröræfi bendir til að hörfunin hafi verið ósamfelld og jafnvel rofin af stuttum framrásum jökuljaðarsins. Aldursgreiningar munu sannreyna þessa tilgátu og varpa ljósi á hraða hörfunarinnar. Þrjú sýni af Skessugarði og tvö af Fiskidalsgarði gefa aldur upp á 10.900 og 10.200 ár, en óvissa er enn talsverð. Vonast er til að fleiri sýni, sem nú eru í vinnslu, styrki niðurstöðurnar. Frumathugun á gjóskulögum við  Þorláksmýragarð á Brúaröræfum bendir til að innan við hann megi finna Saksunarvatn gjóskuna (10.300 ára), sem gæfi þá lágmarksaldur garðsins og benti til að austurhálendið hafi orðið jökullaust skömmu síðar. Þetta er nauðsynlegt að sannreyna með því að kanna betur útbreiðslu gjóskuleiðarlaga og taka af þeim sýni til efnagreininga, bæði á Brúaröræfum og Jökuldalsheiði, og þar með styrkja aldurákvarðanir og niðurstöður verkefnisins í heild. Rannsóknarspurningarnar eru: (1) hver er skipan, útbreiðsla og efnasamsetning gjóskulaga frá upphafi nútíma á Jökuldalsheiði og Brúaröræfum, (2) hvenær mynduðust Skessugarður, Fiskidalsgarður, Búrfellsgarður og Þorláksmýragarður, og (3) hversu hratt hörfaði ísaldarjökullinn frá ströndu í Vopnafirði og inn á Brúaröræfi. Að verkefninu loknu verður til einstakt gagnasett fyrir Ísland og víðar með samhliða greiningum á afhjúpunaraldri og gjóskulögum.