Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Stauraundirstöður fyrir brýr

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Verkefnið hófst árið 2021 með styrk frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar. Skoðaðar aðferðir við hönnun stauraundirstaða fyrir brýr í sandi eða sendnum jarðvegi sem eru grundaðar á viðnámsstaurum.

Árið 2022 fékkst framhaldsstyrkur frá Rannsóknarsjóði Vegagerðarinnar til að halda áfram með verkefnið. Skoðað hvort væri hægt að nota reikniaðferðir byggðar á CPT borunum til að meta burðarþol staura í Íslandi. Öldrunaráhrif á burðarþol staura voru einnig skoðuð og fjallað um það hvaða jarðtæknirannsóknir ætti að framkvæma á undirbúningsstigi framkvæmda.

Nú er sótt um styrk fyrir þriðja áfanga verkefnisins. Í þessum áfanga verða gerðar PDA álagsprófanir á staurum undir nýja brú á Djúpá og niðurstöður bornar saman við reikniaðferðir sem skoðaðar hafa verið í fyrri áföngum verkefnisins. Byggt á þeirri vinnu sem unnin hefur verið í fyrstu tveim áfangskýrslunum þá verður skoðað hvort hægt sé að mæla með einhverri ákveðinni reikni- eða hönnunaraðferð fyrir staura á Íslandi. Þá verða tímaáhrif á burðarþol staura skoðuð nánar og metið hvort hægt sé að yfirfæra leiðbeiningar úr Peleveiledningen (2019) á Íslenskar aðstæður og þá fyrir hvaða jarðvegsaðstæður það væri hægt. Einnig verður skoðað hvort hægt sé að gera fleiri CPT boranir og dýnamísk álagspróf til að bera saman við reikniaðferðir, sérstaklega er horft til þess að skoða möguleika og hagnýtingu af því að gera dýnamísk álagspróf fyrir endaberandi staura. Leiðbeiningar fyrir niðurrekstur verða líka skoðaðar, bæði fyrir endaberandi og núningsberandi staura, og skilgreiningar um það hvenær hætta eigi niðurrekstri m.t.t. að nægjanlegu burðarþoli sé náð uppfærðar m.t.t. staurahamars sem Vegagerðin á í dag. Að lokum verður borin saman hönnun á undirstöðu sem hönnuð er skv. þeim aðferðum sem almennt hefur verið beitt fyrir stauraundirstöður í sandi eða sendnum jarðvegi á Íslandi undanfarin ár, og undirstöðu sem hönnuð er með nýlegri aðferðarfræði sem byggir á ýtarlegri jarðkönnunum og dýnamískum álagsprófunum staura (PDA próf).

Tilgangur og markmið:

 

Verkefninu er ætlað að leggja mat á hve mikinn ávinning má hafa af innleiðingu uppfærðra aðferða við hönnun stauraundirstaða fyrir brýr í sandi eða sendnum jarðvegi. Aðferðir er kynntar og gerð grein fyrir þeim jarðvegsrannsóknum sem eru nauðsynleg forsenda fyrir beitingu þeirra Niðurstöður verkefnisins verða settar fram sem hlutfallslegur samanburður á kostnaði og kolefnisspori undirstaða sem hannaðar eru með þessum nýju aðferðum annars vegar og aðferðum sem algengast er að beitt sé nú um stundir hérlendis hins vegar. Þennan mun og mögulegan sparnað má heimfæra á brýr sem fyrirhugaðar eru og líkur standa til að grundaðar muni verða á staurum. Markmiðið er þannig að benda á leið til að auka sjálfbærni í brúarhönnun í íslenska þjóðvegakerfinu.

Verkefnið fellur að markmiðum Rannsóknarsjóðs Vegagerðarinnar með því að beina sjónum að hönnunaraðferð sem eykur sjálfbærni í brúarhönnun og styður þannig beint við hlutverk Vegagerðarinnar um sjálfbærar samgöngur og þróun þeirra í samræmi við markmið. Auk þess tengist verkefnið beint inn á vinnu að Aðgerð C.3 Loftslagsáhrif byggingariðnaðarins og jafnframt inn á Aðgerð G.8 Sjálfbær opinber innkaup úr Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Einnig hefur verkefnið tengingu við Heimsmarkmið SÞ um Sjálfbæra þróun, einkum undirmarkmið 9.4, 9.5 og 12.2.

Verkefninu er einnig ætlað að nýtast sem hluti af framlagi Íslands í NVF samstarfið, en þar veitir Ísland brúarnefnd forstöðu árin 2020-2024.

Þá getur verkefnið einnig nýst inn í vinnu við uppfærslu á þolhönnunarstöðlum Eurocode en vinna við það er í gangi og hafa niðurstöður úr fyrri tveimur áföngunum nú þegar verið nýttir í þá vinnu