Almenn verkefni 2024

Heiti verkefnis : 

Lífbindiefni í malbik

Verkefnastjóri : 

 

Stutt lýsing á verkefninu:

 

Í nútímasamfélagi er mikilvægt að leitast við að minnka umhverfisáhrif hvar sem hægt er, og stefna alltaf að bætingum í átt að umhverfisvænna samfélagi. Colas Ísland hóf árið 2022, í samstarfi við móðurfélag sitt í Frakklandi, tilraunir á notkun lífbindiefnis (e. bio-binder) sem er unnið úr hliðarafurðum pappírsframleiðslu og hefur verið kallað lífbindiefni A. Þar sem lífbindiefni A er unnið úr trjám, er kolefnisspor efnisins neikvætt. Hægt er að blanda lífbindiefni A í malbik með því að minnka bik notkun á móti sem myndi þar af leiðandi lækka kolefnisspor malbiksins umtalsvert án þess að hafa áhrif á gæði malbiksins. Blöndun lífbindiefnis í bik þýðir einnig að minna þarf að nota af biki og þar með er minna gengið á takmarkaðar auðlindir jarðarinnar. Nú þegar hefur Colas Ísland lagt út malbik með 12% lífbindiefni A á göngustíg í Hafnarfirði, sem kom  vel út, bæði í rannsóknum á blöndunni og í útlögn. Árið 2023 hóf fyrirtækið prófanir á annarskonar lífbindiefni sem er unnið úr grænmetisolíum. Þetta efni hefur verið kallað lífbindiefni B og komu prófanir á því mjög vel út.

Næsta skref er að leggja tvær malbikstegundir annarsvegar með lífbindiefni A og hinsvegar lífbindiefni B á umferðarþunga vegi og setja um leið blöndurnar í hjólfarapróf, slitþolspróf og vatnsnæmipróf, til að rannsaka frammistöðu malbiksins á vegum með það að markmiði að bjóða uppá grænni kost í vegagerð á Íslandi.

Tilgangur og markmið:

 

Verkefnið felur í sér tilraunaframleiðslu á tveimur malbikstegundum annarsvegar með lífbindiefni A og hinsvegar lífbindiefni B og tilraunaútlögn á umferðarþunga vegi. Í kjölfarið verða báðar malbikstegundirnar prófaðar með tilliti til hjólafaramyndunar, slitþols og vatnsnæmi auk þess sem fylgst verður með ástandi vegarins í þrjú ár eftir útlögn.

Markmið verkefnisins er að athuga hvaða áhrif það hefur á slitlagsmalbik á umferðarþungum vegi að bæta lífbindiefni við malbikið og hvort það hafi marktæk áhrif við íslenskar aðstæður. Markmiðið er að auka notkun lífbindiefnis í malbik sem Colas Ísland framleiðir og lækka þar með kolefnisspor malbiksins til góða fyrir umhverfið og samfélagið. Lífbindiefni myndi ekki einungis hafa jákvæð áhrif á kolefnisfótspor malbiks, heldur drýgir það einnig bikið, svo minna er gengið á takmarkaðar auðlindir jarðarinnar. Það er augljóst að bik er ekki óendanleg auðlind og því mikilvægt að þróa aðferðir til að minnka notkun þess. Sífelld framþróun í vinnslu biks veldur því að minna framboð verður af mjúku biki og því er það tilgangur verkefnisins að bregðast við þeim breytingum og vera tilbúin ef til þess kemur að mjúkt bik verði ófáanlegt, samhliða því að minnka umhverfisáhrif og kolefnisspor í vegagerð á Íslandi.